Þjónusta

Ertu óviss um þína réttarstöðu? Hafðu samband, það kostar ekkert!

Hjónaskilnaður

Gengið er frá hjónaskilnaði hjá sýslumanni sem gefur út skilnaðarleyfi. Nái fólk ekki sáttum um skilnað er málinu vísað til dómstóla.

Fyrst er venjulega veittur skilnaður að borði og sæng en lögskilnaður að liðnum umþóttunartíma og ef öðrum skilyrðum er fullnægt.

Við vissar kringumstæður má óska eftir lögskilnaði án þess að skilnaður að borði og sæng fari á undan, svo sem vegna hjúskaparbrots, langvarandi samvistarslita vegna ósamlyndis eða vegna ofbeldis sem átt hefur sér stað gagnvart maka eða barni.

Sambúðarslit

Við sambúðarslit fólks sem ekki á börn saman nægir að tilkynna um breytt heimilisfang til Þjóðskrár Íslands. Tilkynna flutning til þjóðskrár

Fólk í skráðri sambúð sem á börn saman þarf að leita til sýslumanns, tilkynna um sambúðarslit og ganga frá lögheimili og forsjá barna sinna og meðlagsgreiðslum. Sýslumaður getur einnig staðfest samkomulag um umgengni.

Fjárskiptasamningar

Hjón þurfa að gera með sér skriflegan fjárskiptasamning og leggja hann fram og staðfesta samkomulag við fyrirtöku skilnaðarmálsins hjá sýslumanni. Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita.

Sýslumaður getur ekki veitt skilnaðarleyfi nema annaðhvort liggi fyrir samningur hjóna um fjárskipti eða úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram.

Ef bæði hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þarf þá ekki að leggja fram fjárskiptasamning.

Lögheimili, forsjá og umgengni

Ef hjón eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með lögheimili barnsins og hver fer með forsjá þess eða hvort hún sé sameiginleg.

Ef foreldra greinir á um lögheimili og/eða forsjá þurfa þeir að fara í sáttameðferð hjá sýslumanni eða hjá viðurkenndum sáttamiðlara sem hefur sérfræðiþekkingu í málefnum barna. Ef foreldrar geta ekki leyst ágreining verður að leita til dómstóla til þess að leysa úr honum.

Skilnaðarleyfi verður ekki gefið út nema fyrir liggi samkomulag um forsjá eða fyrir liggi að ágreiningur hafi verið lagður fyrir dómstóla. Það er ekki skilyrði fyrir útgáfu skilnaðarleyfis að ákveðið hafi verið hvernig umgengni foreldra og barns skuli hagað.

Kaupmálar

Ef óskað er eftir að eign sé ekki hjúskapareign þarf að gera hana að séreign. Séreign getur myndast fyrir ákvörðun hjóna eða tveggja einstaklinga sem ætla að ganga í hjónaband, hjónaefna, sem þá þurfa að gera um hana kaupmála. Einnig getur sá sem gefur öðru hjóna gjöf ákveðið með sannanlegum hætti að hún skuli vera séreign og einnig getur arfleiðandi sett ákvæði um þetta í erfðaskrá.  Hjón sjálf geta ekki breytt þessum ákvörðunum gefanda og arfleiðanda nema slíkt sé heimilað í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af þeim.

Séreign kemur ekki  til skipta við skilnað milli hjóna eða milli annars þeirra og erfingja hins nema sérstakar heimildir leiði til annars.

Séreignarákvæði er hægt að tímabinda, svo og skilyrða með þeim hætti að kaupmáli gildi ekki ef hjón eignast sameiginlega skylduerfingja.

Erfðaskrá

Erfðaskrá er skriflegur, formbundinn löggerningur sem hver sá sem er andlega heill, orðinn 18 ára eða hefur stofnað til hjúskapar getur gert til að ráðstafa eignum sínum eftir andlát. Strangar reglur gilda um form erfðaskráa og um hvernig á að standa að vottun þeirra. Erfðaskrá kann að vera metin ógild ef ekki er eftir þeim reglum farið. Hægt er að breyta erfðaskrá eða auka við hana en við breytinguna verður að fylgja sömu reglum.

Ef fleiri en ein erfðaskrá eru til staðar og allar teljast gildar samkvæmt lögum er það sú yngsta sem fara skal eftir, ef þær stangast á.

Hafa samband

4 + 4 =